Innlent

Fjórðungur Íslendinga sest undir stýri eftir að hafa neytt áfengis

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Um fjórðungur Íslendinga hefur síðastliðið hálft ár ekið í kjölfar þess að drekka einn eða fleiri áfenga drykki. Frá þessu er greint á vefsíðu VÍS.

Þetta kemur fram í könnun Samgöngustofa sem framkvæmd var undir lok síðasta árs. Karlar eru líklegri til að setja undir stýri eftir að hafa neytt áfengis en um 29 prósent  karlkyns svarenda sögðust hafa ekið eftir áfengisdrykkju á móti 18 prósentum kvenna.

Íbúar á Höfuðborgarsvæðinu eru einnig líklegri til þess að aka eftir einn eða fleiri drykki og eftir því sem menntun og tekjur ökumanna aukast gera líkurnar á ölvunarakstri þeirra það einnig.

Í könnuninni kom fram að þeim fækkar um helming sem leyfa sér að aka eftir að hafa innbyrt fleiri en einn drykk. Tólf prósent svarenda höfðu keyrt eftir að hafa fengið sér fleiri en tvo drykki.

Nærri tvær af hverjum þremur endurkröfum tryggingarfyrirtækja má rekja til ölvunaraksturs og í þriðjungi þeirra áttu önnur vímuefni og lyf í hlut. Fjölgað hefur hratt í síðarnefnda hópnum undanfarin ár og vill lögreglan brýna fyrir öllum ökumönnum að setjast aldrei undir stýri eftir neyslu áfengis eða annarra vímuefna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×