Innlent

Sakar Sjálfstæðisflokkinn um undirlægjuhátt

Jakob Bjarnar skrifar
Sveinbjörg Birna greiðir atkvæði í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Urgur er í Framsóknarmönnum vegna úthlutunar sæta í nefndum á vegum borgarinnar.
Sveinbjörg Birna greiðir atkvæði í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Urgur er í Framsóknarmönnum vegna úthlutunar sæta í nefndum á vegum borgarinnar. visir/pjetur
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir Halldór Halldórsson og Sjálfstæðismenn hafa þegið bitlinga frá meirihlutanum í borgarstjórn. „Við skuldum meirihlutanum ekki neitt,“ sagði Sveinbjörg Birna í viðtali við Bergstein Sigurðsson í morgunútvarpi Rásar 2, nú fyrir stundu.

Ummæli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra þess efnis að Framsóknarflokkurinn sé vart stjórntækur, þá með vísan til þess að þeir hafi gert út á atkvæði þeirra sem vilja gjalda varhug við því að moska múslima rísi hér á landi, hafa vakið athygli. Þá hefur Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna, sagt að Framsóknarflokkurinn verði að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Urgur er í Framsóknarmönnum vegna þessa og hvernig staðið er að skipan í nefndir og ráð á vegum borgarinnar. Sveinbjörg Birna sagði: „Sjálfstæðisflokkurinn er að þiggja bitlinga frá meirihlutanum.“ Oddvitinn vísar þar til stjórnarsetu í Faxaflóahöfnum og Orkuveitunni – stjórnarseta sem telst feitur biti þegar hrossakaup flokkanna eru annars vegar. Hins vegar skuldi Framsóknarflokkurinn meirihlutanum í Reykjavík ekki neitt og getur því verið heill í stjórnarandstöðu í borginni.

„Ef þeir verða ekki þægir og ganga í takt, þá verður þeim annað hvort hent eftir ár eða þeim klappað,“ segir Sveinbjörg Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×