Innlent

Segir hvalveiðar tilgangslausar

Sigursteinn Másson fulltrúi International Fund for Animal Welfare á Íslandi segir duttlunga Kristjáns Loftssonar, eiganda Hvals hf., ráða för í hvalveiðimálum Íslendinga.
Sigursteinn Másson fulltrúi International Fund for Animal Welfare á Íslandi segir duttlunga Kristjáns Loftssonar, eiganda Hvals hf., ráða för í hvalveiðimálum Íslendinga. Vísir/GVA/Anton
„Þetta var náttúrulega óskemmtileg sjón en við vorum að benda tilgangsleysi þessara veiða, sem eru náttúrulega bara að valda Íslandi vandræðum, og engin eða lítil eftirspurn eftir þessu í Japan,“ segir Sigursteinn Másson fulltrúi samtakanna International Fund for Animal Welfare á Íslandi, sem var í viðtali við Jakob Bjarnar Grétarsson í fréttum Bylgjunnar í hádeginu.

Eins og sagt var frá á Vísi í morgun kom Hvalur 9 með fyrstu langreyðina í Hvalstöðina í Hvalfirði á þessari vertíð á þriðja tímanum í gær.

Um tuttugu manna hópur tók sér mótmælastöðu, ekki aðeins vilja þau mótmæla því sem þau segja ómannúðlegar veiðar heldur telur Sigursteinn augljóst hinar tilgangslausu hvalveiðar, eins og hann orðar það, séu að spilla viðskiptahagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi.

„Það er kannski orðið augljósara heldur en oft áður, hversu miklum vandræðum þessar veiðar eru að valda okkur á alþjóðavettvangi og þá sérstaklega í samskiptum við þau ríki þar sem við eigum mest undir. Það eru náttúrulega aðallega ríki Evrópusambandsins og Bandaríkin. “

Hann telur að duttlungar Kristjáns Loftssonar, eiganda Hvals hf., séu látnir ráða meiru um stefnu Íslands í hvalveiðimálum heldur en hagsmunir þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. „En þetta er einhvern veginn þannig að virðist vera þessi eini maður, sem stýrir þessu fyrirtæki, Hval hf., með þessum hætti, að hans duttlungar eigi að fá að ráða mestu og skipta meira máli heldur en hagsmunir Íslands,“ segir Sigursteinn.

Sigursteinn segir frekari mótmælaaðgerða vera að vænta í sumar. „Við munum halda áfram að benda á þetta tilgangsleysi og hversu fráleitar þessar veiðar eru. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×