Innlent

„Fari svo, eru kosningarnar ógildar“

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
„Já ég er að skoða þetta í fullri alvöru og hef tíma fram á föstudag,“ segir Björgvin E. Vídalín, formaður Dögunar. Hann hyggst kæra framboð Framsóknarflokksins í Reykjavík. Á föstudaginn rennur ákærufrestur vegna kosninganna út.

Sagt var frá því á  Vísi fyrir helgi að Þjóðskrá hefði lögheimilisskráningu Sveinbjargar Birnu Sveinbjarnardóttur, oddvita framsóknarmanna í Reykjavík, til athugunar. Sveinbjörg er með lögheimili skráð í Reykjavík, en hefur sagst búa í Kópavogi. DV sagði frá því fyrr í dag að Björgvin hefði hug á að kæra framboðið.

„Ég ráðfæri mig við ýmsa menn, en það verður af þessu. Í mínum huga er þetta þannig mál að nauðsynlegt sé að fá úr því skorið,“ segir Björgvin. „Búseta er samkvæmt lögum þar sem búslóð er og þar sem manneskjan dvelur meiri part ársins, auk fleiri atriða.“

„Þó hún hafi afdrep í Reykjavík, er það ekki næg ástæða til að hún sé kjörgeng að mínu mati.“

Eins og áður hefur komið fram hefur Þjóðskrá lögheimilisskráningu Sveinbjargar til athugunar. Mál Sigurbjargar er í hefðbundinni málsmeðferð hjá Þjóðskrá, en að henni lokinni verður ákvörðun tekin um hvort lögheimilisskráning skuli vera óbreytt, eða viðkomandi skuli skráður til lögheimilis annarsstaðar.

„Fari svo, þá eru kosningarnar ógildar, að mínu mati. Það væri ekki bara hægt að færa næstu manneskju upp, heldur er kosningin ógild og kjósa þarf upp á nýtt,“ segir Björgvin.

Björgvin hefur þó ekki lagt fram kæru enn. „Það er verið að skoða þetta, en það mun verða að þessu.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.