Innlent

Spá 20 stiga hita

Kristján Már Unnarsson skrifar
Líklegt er að tækifæri gefist um helgina til að sitja léttklæddur á þurri grasflöt.
Líklegt er að tækifæri gefist um helgina til að sitja léttklæddur á þurri grasflöt. Vísir/Anton.
Sól og blíða eru framundan, einkum inn til landsins, og stefnir í hlýja hvítasunnuhelgi og kjöraðstæður fyrir tjaldútilegu og fyrir bændur að hefja slátt, samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar.

Á föstudag er spáð allt að 20 stiga hita á landinu og að hlýjast verði í uppsveitum á Suður- og Vesturlandi. Bjartviðri er spáð á landinu nema á annesjum fyrir norðan og austan þar sem gera má ráð fyrir þokulofti.

Fyrir bændur sem farnir eru að huga að heyskap þýðir þetta að brakandi þurrkur verður víðast hvar og svo verður einnig um helgina. Spáin fyrir laugardag og sunnudag, hvítasunnudag, er svohljóðandi:

„Hæg breytileg átt eða hafgola og bjartviðri en sums staðar þokubakkar við ströndina. Hiti víða 10-20 stig, hlýjast inn til landsins.“

Á mánudag, annan í hvítasunnu, gerir Veðurstofan svo ráð fyrir að hann snúist í norðanátt, með rigningu norðanlands en skúrum sunnantil og kólnandi veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×