Innlent

Þýskir sjóstangveiðimenn mokfiska

Gissur Sigurðsson skrifar
Kampakátur þýskur sjóstangaveiðimaður með vænan og ófrýnilegan feng úr undirdjúpunum.
Kampakátur þýskur sjóstangaveiðimaður með vænan og ófrýnilegan feng úr undirdjúpunum. Róbert Schmidt
Strandveiðisjómenn eru afar óhressir með að mega ekki róa nú í blíðunni og að þurfa að vera í landi fram á þriðjudag. Samtímis eru um það bil 40 smábátar á veiðum á Vestfjarðamiðum, mannaðir þýskum stangveiðimönnum, sem eru ólikt kátari, enda eru þeir að mokfiska.

Bátarnir eru gerðir út frá fimm kauptúnum á Vestfjörðum og er veiðimönnunum séð fyrir húsnæði á hverjum stað. Á Suðureyri stjórnar Súðfirðingurinn Róbert Schmidtútgerðinni þar.

„Núna er vertíðin að byrja, sjóstangavertíðin hérna fyrir vestan. Þetta eru tvö stór fyrirtæki sem eru með sjóstangabáta. Okkar aðalkúnnar eru frá Þýskalandi. Okkar fyrirtæki, Iceland Pro Fishing, við erum með 22 báta. Svo er Sumarbyggð með hátt í 20 báta, þetta er svona stærsti kjarni í sjóstangaveiðinni á Íslandi.“

Róbert segir að allt sé komið í gang nú þegar. „Jájájá, það er svolítið síðan. Við tókum fyrstu kúnnana í apríl og svo er þetta allt að byrja á fullu núna. Það er komin um rúm vika síðan þetta byrjaði af fullum krafti.“

Róbert segir að það séu alltaf sömu mennirnir sem koma aftur, ár eftir ár, og hafa komið síðan 2007, sömu hóparnir aftur og aftur á þessum tíma. „Þeir eru orðnir sérhæfðir, þekkja svæðið og eru að veiða mjög stóra þorska, alveg uppí 30 kílóa, skötusel, hlýra, ýsu, karfa, löngu ... þetta er bara allur pakkinn,“ segir Róbert á Suðureyri.

Aflanum er svo landað þar til vinnslu. Sjávarútvegsráðuneytið leggur þessari starfssemi til kvóta árlega og svo leggja sjávarútvegsfyrirtækin til kvóta einnig, ef með þarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×