Enski boltinn

Toure: Framtíð mín hjá City í óvissu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Yaya Toure segist óviss um hvort hann verði áfram í herbúðum Manchester City og staðfestir óánægju vegna afmælisdagsmálsins svokallaða.

Toure var í viðtali hjá The Sun og beIN Sports-sjónvarpsstöðinni en fyrrnefndi miðillinn slær því upp í dag að hann vilji gjarnan ljúka ferlinum hjá Barcelona, hans gamla félagi.

„Við vitum þó ekki hvað gerist því hlutirnir gerast hratt í fótboltanum,“ sagði Toure. „En það er rétt það sem ég sagði [um Barcelona].“

„Manchester City átti frábært tímabil og þess vegna eru allir að tala um mig. Það er allt opið og við vitum ekki hvað gerist á morgun.“

„Nú ætla ég að einbeita mér að HM og við munum svo sjá til hvað gerist þegar HM lýkur,“ sagði Toure sem verður lykilmaður með landsliði Fílabeinsstrandarinnar í Brasilíu í sumar.

Umboðsmaður hans, Dimitry Seluk, staðfesti í samtali við Sky Sports að Toure hafi verið óánægður með að honum hafi ekki verið óskað til hamingju með afmælið í síðustu viku.

„Nú, rétt eins og í fyrra, erum við að tala um virðingaleysi félagsins gagnvart honum. Þeir geta ekki keypt sér mannleg tengsl - þau verður að vinna sér inn,“ sagði Seluk.

„Við erum ekki að biðja um peninga eða gjafir - aðeins athygli. Það er aðalatriðið. Kannski vita þeir ekki um hvað málið snýst hjá Manchester City.“

Toure var sagður vilja fara frá City síðastliðið sumar en hann skrifaði svo undir nýjan fjögurra ára samning við félagið í haust.


Tengdar fréttir

Umboðsmaður Toure staðfestir fýluna

Umboðsmaður Yaya Toure segir framferði forráðamanna Manchester City ógeðfellt en þeir óskuðu kappanum ekki til hamingju með afmælið á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×