Enski boltinn

Umboðsmaður Toure staðfestir fýluna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Umboðsmaður Yaya Toure segir framferði forráðamanna Manchester City ógeðfellt en þeir óskuðu kappanum ekki til hamingju með afmælið á dögunum.

Dimitri Seluk, umboðsmaður Toure, var í viðtali hjá The Sun í morgun þar sem þetta kom fyrst fram. Fréttamenn BBC fengu ummælin svo staðfest hjá honum.

„Enginn þeirra [eigendanna] tóku í hönd hans á afmælisdaginn. Það er virkilega ógeðfellt,“ sagði Seluk og bætti við að Toure væri í miklu uppnámi vegna málsins.

„Hann fékk köku á afmælisdaginn en þegar Roberto Carlos átti afmæli fékk hann Bugatti [glæsibifreið] að gjöf frá eigendum Anzhi,“ bætti Seluk við en bætti við að Toure hefði ekki átt von á gjöf. Handaband hefði dugað.

Fram kemur í frétt BBC að fulltrúar liðsins vildu ekki tjá sig um málið en að eigendur félagsins hefðu ekki miklar áhyggjur af því. Toure var einn allra besti leikmaður City á nýliðinni leiktíð er City tryggði sér enska meistaratitilinn.

Seluk sagði að Toure hefði líka verið óánægður síðastliðið sumar en hann skrifaði síðan undir nýjan fjögurra ára samning.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×