Innlent

Ísland á kolrangri braut í fíkniefnamálum

Samúel Karl Ólason skrifar
„Spurningin er hvernig við getum best stjórnað hegðun okkar á meðan við lifum í umburðarlyndu samfélagi sem kemur ekki fram við fólk eins og glæpamenn einfaldlega vegna þess hvað það velur að setja í líkama sinn.“

Hörð bann- og refsihyggja er víðast hvar á undanhaldi í Norður-Ameríku og Evrópu. Snarrótin samtök um borgaraleg réttindi hafa fengið Ethan Nadelman hingað til lands sem hélt fyrirlestur um þessi mál í Háskóla Íslands í dag og mun hann meðal annars hitta þingmenn til að fara yfir þessi mál.

Ethan er einn helsti forystumaður frjálslyndari stefnu í þessum málum í Bandaríkjunum, en Heimir Már Pétursson ræddi við hann í Ísland í dag í gær.

Fólk var móðursjúkt

Ástæða þess að Ethan, sem er með stjórnamálafræðigráðu frá Harvard og alþjóðasamskiptum frá London School of Economics, kynnti sér þessi eiturlyfjamál er sú að fyrir löngu varð hann heillaður af þessari miklu gjá á milli þess sem vísindalegar sannanir, sögðu okkur um raunveruleika fíkniefna- og fíkniefnanotkunar. Sem og um uppruna fíkniefnalaga og þess sem almenningur ímyndar sér og hvernig lögin virka.

„Ég sé ekkert annað svið í Bandaríkjunum, og að vissu leyti í heiminum þar sem þessi gjá var svona breið. Þetta fannst mér heillandi ráðgáta,“ sagði Ethan.

Ethan vann á níunda áratuginum í fíkniefnadeild utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, þar sem hann talaði við fíkniefnafulltrúa um allan heim og skrifaði bækur. Hann segir að strax á einni hluta níunda áratugarins hafi þegar Bandaríkin hófu sitt „eiturlyfjastríð“ byrjaði hann að tala um stefnubreytingu.

„Þá var stríðið gegn eiturlyfjum í Bandaríkjunum ekki ósvipað reynslu okkar af McCarthyismanum, hinu andkommúníska brjálæðiá sjötta áratuginum. Fólk var móðursjúkt,“ segir Ethan. „Í staðinn fyrir kommúnistaógn læstum við inni milljónir Bandaríkjamanna, oft fyrir mjög smávægileg fíkniefnabrot.“

Um 25 prósent allra fanga í heiminum

Hann segir Bandaríkin vera að gera hræðilega hluti innan eigin landamæra.

„Við höfum minna en fimm prósent af mannfjölda heimsins en næstum því 25 prósent af föngum í heiminum. Við höfum hæsta hlutfall fanga í sögu lýðræðislegra samfélaga. Og þegar kemur að föngum af afrískum uppruna, svörtum Bandaríkjamönnum, er hlutfall þeirra  miklu hærra en hlutfall fanga í gúlögum Sovétríkjanna á 4. og 5. áratugnum.“

Þar að auki hafi Bandaríkin flutt út stríð sitt gegn eiturlyfjum til annarra heimshluta og neytt aðrar þjóðir til að taka þeirra aðferðir.

„Ég get að minnsta kosti sagt að núna, þegar kemur að kannabis, erum við að gefa leiðbeiningar út um heiminn í rétta átt,“ segir Ethan.

Ehtan segir nærri hálfa milljón Bandaríkjamanna vera í fangelsum fyrir fíkniefnabrot án ofbeldis.

„Fleira fólk er í fangelsi í Bandaríkjunum fyrir ofbeldislaus fíkniefnabrot en allir íbúar Íslands. Þetta á sér engin fordæmi í sögunni.“

Vísir/Anton
Reglustefna betri en misheppnuð bannstefna

Hvað varðar kannabis, segir Ethan að hafi þó orðið breyting í Bandaríkjunum. Helmingur íbúa á aldrinum 16 – 60, hafa prófað marijúana. „Við höfum haft þrjá forseta sem hafa notað það.“

Hann segir tvö rök hafa mest áhrif á fólk. Fyrri rökin væru að miðstéttarforeldrar vildu að lögreglan einbeitti sér að alvöruglæpum, í stað þess að handtaka ungt fólk fyrir að vera með marijúana og koma því á sakaskrá sem eltir það allt lífið.

Seinni rökin eru að fólk vilji að stjórnvöld skattleggi viðskipti með marijúana og, setji reglur og eyði peningunum í hluti eins og skóla og fíkniefnameðferð. Í stað þess að láta glæpamenn græða.

„Eina ástæða þess að við sjáum hríðvaxandi stuðning við lögleiðingu og regluvæðingu marijúana í Bandaríkjunum er að miðstéttarforeldrar unglinga hafa komist að þeirri niðurstöðu að stefna sem felur í sér reglur sé betri en misheppnuð bannstefna,“ segir Ehtan.

Merkjum fólk fyrir lífstíð

„Mér skilst að á Íslandi, og það er aðdáunarvert við samfélag ykkar, er þessi hefð fyrir umbyrðarlyndi og andstaða við að setja fólk í fangelsi og svipta það frelsi sínu. En svo virðist vera þessi undantekning hvað eiturlyf varðar,“ segir Ethan.

„Þið sendið hunda inn í sali til að leita á ungu fólki og kennið þeim að þau séu álitin sek þangað til sakleysi þeirra er sannað. Þið merkið fólk fyrir lífstíð sem gerir því erfitt að fá vinnu, eða ferðast til Bandaríkjanna eða fá húsnæði eða þess háttar.“

Ethan segist skynja að á Íslandi ríki umburðarleysi hvað varði kannabis eða önnur fíkniefni sem sé svæsnara en í hans landi og í mótsögn við hefð Íslendinga fyrir umburðarlyndi.

Hvernig hagnast þjófélagið á bannstefnu

„Það sem ég ætla að tala um er hvaða vísindalegar sannanir eru úr réttarkerfinu og heilbrigðiskerfinu í sambandi við hvaða leiðir eru bestar til að takast á við fíkniefnin, bæði hjá ungu fólki og fullorðnum,“ segir Ethan um fund sinn með velferðarnefnd Alþingis.

Þá mun hann einnig tala um lærdóminn sem hægt sé að draga af tilraunum í Hollandi og núna í Bandaríkjunum og Úrúgvæ.

„Hvernig hagnast þjóðfélagið á því að láta ungmenni á sakaskrá fyrir það eitt að eiga og nota jónu? Ég sé engan ávinning. Þegar um mann er að ræða sem er háður fíkniefni í hvítu duftformi. Hvernig græðir samfélagið á því að koma fram við hann sem glæpamann og neyða hann til að nota skítugar nálar, neyða hann út á göturnar í stað þess að líta á hann sem mann með fíkn sem þarfnist hjálpar?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×