Innlent

Oddviti Framsóknar og flugvallarvina með sólópróf í flugi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Nýr oddviti Lista Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík segist ætla að ná tveimur borgarfulltrúum inn í borgarstjórn í vor en flokkurinn á engan borgarfulltrúa í dag. Oddvitinn talar þýsku, frönsku og Arabísku, hefur sólópróf í flugi og spilar blak.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, héraðsdómslögmaður er 41 ára einstæð þriggja barna móðir, sem mun leiða listann fyrir borgarstjórnarkosningarnar 31. maí í vor. Sveinbjörg Birna er formaður Landssambands Framsóknarkvenna. Hún segir að flugvallamálið sé eitt af aðalstefnumálum flokksins

„Ég hef alltaf haft hjarta fyrir því að þarna eigi flugvöllurinn að vera og hvergi annarsstaðar en fyrir því eru margar aðrar ástæður. Þarna á flugvöllurinn að vera, það er engin efi í mínum huga“, segir Sveinbjörg Birna.

Hún segir húsnæðismál líka vera mjög ofarlega hjá Framsóknarflokknum en sjálf býr hún leiguíbúð í Kópavogi en er með lögheimili í Reykjavík.

„Ég er með lögheimili í Reykjavík í Bólstaðahlíð 56 en þar er ég búin að búa við mjög þröngan kost í íbúð með systur minni og þremur börnum. Það var nú þannig að annar eigandi var orðinn gjaldþrota, þannig að það varð ljóst að við myndum missa íbúðina þannig að mér áskotnaðist í mars á þessu ári íbúð í Furugrundinni í Kópavogi þar sem ég bý núna, þannig að ég er þessi Reykvíkingur sem er á hrakhólum húsnæðislega séð,“ bætir hún við.

Sveinbjörg Birna segist vera góð tungumálamanneskja, talar reiprennandi þýsku og frönsku, auk þess sem hún er góð í arabísku. Hún æfir blak með Fylki og segist vera góð í þeirri íþrótt.

„Ég er svaka smassari og góð í uppgjöfum“, segir hún og skellihlær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×