Innlent

Byggðarröskun stóri galli kvótakerfisins

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Vísir/Stefán
Hannes Sigurðsson útgerðarmaður í Þorlákshöfn segir réttleysi fjölmargra byggðarlaga á landsbyggðinni algjört og hagsmunir þeirra verið fyrir borð bornir. Meiri kvóti þurfi að renna beint til byggðarlaganna.

Í páskablaði Fiskifrétta er rætt við Hannes Sigurðsson, útgerðarmann og fiskverkanda í Þorlákshöfn um stöðu byggðarlaga í tengslum við kvótakerfið. Talsverð umræða hefur verið um íslensk sjávarþorp að undanförnu eftir að útgerðarfyrirtækið Vísir hf. ákvað að hætta starfsemi sinni á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri - ákvörðun sem gæti haft víðtæk áhrif á framþróun þessara byggðarlaga.

„Ég tel að byggðarlög hafi rétt og eigi að hafa hann. Frá landnámstíð hafa þeir sem búa við sjávarsíðuna haft rétt til lífsbjargar af sjósókn. Ég tel það vera réttur sem ekki sé hægt að taka af byggðarlögunum,“ segir Hannes.

Hann kallar eftir að stjórnvöld grípi í taumanna og láti meiri kvóta renna beint til byggðarlaganna. „Menn hafa rætt þetta mikið í gegnum tíðina og séð þennan annmarka á kvótakerfinu. Það hefur eiginlega enginn gengið fram fyrir skjöldu úr greininni og viðurkennt að þetta þurfi að gerast. Það verður að tryggja byggð í landinu og ég held að flestir landsmenn séu á því að það þurfi að halda úti byggð í landinu og það sé öllum til góðs,“ segir Hannes.

Kvótakerfið er ekki alsæmt að mati Hannesar og nefnir þar t.d. betri nýtinug á afla. Byggðarröskun sé hins vegar stóri gallinn á kvótakerfinu. „Við sjáum hvernig þetta tikkar ár frá ári. Þessar aflaheimildir safnast á örfáar hendur, á örfáa staði og eftir sitja aðrir með tvær hendur tómar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×