Innlent

Fimm sérfræðingar fengnir að utan vegna máls Annþórs og Barkar

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/anton

Héraðsdómur Suðurlands hefur fallist á kröfu verjenda Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar um að dómkveða tvo erlenda sérfræðinga í máli ákæruvaldsins gegn þeim. Þrír aðrir erlendir sérfræðingar hafa einnig verið dómkvaddir í tengslum við við málið.

Þetta er úrskurður Héraðsdóm Suðurlands þar sem málið var tekið fyrir í dag.

Annþór og Börkur sæta ákæru fyrir að hafa ráðist á samfanga sinn, Sigurð Hólm Sigurðsson, á Litla-Hrauni í maí árið 2012 með þeim afleiðingum að milta hans rofnaði og hann lést í kjölfarið. Þeir neita sök.

Verjendur Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar treystu ekki að íslenskir sérfræðingar gættu hlutlægni í málinu. Þeir fóru fram á yfir- og endurmat tveggja þýskra sérfræðinga á rannsóknarniðurstöðum Þóru Steffensen, réttarmeinafræðings, varðandi réttarmeinafræðina.

„Þeir tveir Þjóðverjar sem við höfum fundið til voru í dag dómkvaddir og verða þeir yfirmatsmenn á mati Þóru Steffensen,“ segir Hólmgeir Elías Flosason, lögmaður Annþórs Karlssonar.

„Sækjandi tók sér frest um það hvort hann ætlaði sér að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Varðandi atferlisfræðinga þá var stungið upp á því að fá þrjá atferlisfræðinga sem eru frá Noregi, Svíþjóð og Bretlandi og voru þeir einnig allir dómkvaddir. Sækjandi gerði ekki athugasemdir við það og því eru þeir komnir inn í málið,“ segir Hólmgeir.

Atferlisfræðingarnir verða yfirmatsmenn á rannsóknarniðurstöðu Gísla Guðjónssonar og Jónasar Friðriks Sigurðssonar sem áður voru fengnir til að gefa álit á myndbandsupptöku frá Litla-Hrauni.


Tengdar fréttir

Skorið úr um matsmenn í máli Annþórs og Barkar

Kveðinn verður upp úrskurður í máli ákæruvaldsins gegn Annþóri Karlssyni og Berki Birgissyni í Héraðsdómi Suðurlands í dag um það hvort erlendir yfirmatsmenn komi nálægt málinu.

Vilja tvo þýska sérfræðinga sem yfirmatsmenn

"Ég lagði fram tillögur um tvo þýska sérfræðinga og gerði kröfu um að þeir yrðu dómkvaddir sem yfirmatsmenn á mat Þóru Steffensen,“ segir Hólmgeir Elías Flosason, lögmaður Annþórs Karlssonar. Fyrirtaka í máli Annþórs og Barkar fór fram í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×