Innlent

Segir ummæli um kröfur ESB ekki standast

Jóhannes Stefánsson og Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Árni Páll segir ummæli Sigmundar ekki standast.
Árni Páll segir ummæli Sigmundar ekki standast. vísir/gva
Árni Páll Árnason, formaður Samylkingarinnar, segir ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í Kastljósi í kvöld, um kröfur Evrópusambandsins, ekki standast.

Í viðtalinu sagði Sigmundur að ekki hefði staðið til boða af hálfu Evrópusambandsins að hlé yrði á aðildarumsókn Íslands að sambandinu lengur. Þá sagði hann það hafa verið skýra kröfu af hálfu sambandsins að annað hvort yrði viðræðunum haldið áfram eða umsókn um aðild að sambandinu dregin til baka.

„Þetta stenst auðvitað ekki miðað við þau opinberu gögn sem liggja fyrir í málinu,“ segir Árni Páll og bætir því við að Evrópuþingið hafi ítrekað að ekki eigi að setja þrýsting á Íslendinga um svör.

Aðspurður segist Árni ekki skilja yfirlýsingar forsætisráðherra. „Nei ég átta mig ekki á því. Hann verður eiginlega bara að skýra það.“

Þá vísar Árni Páll til ummæla Stefans Füle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, í umræðum í Evrópuþinginu 16. janúar. Þar segir hann að halda eigi möguleikum opnum varðandi aðild Íslands, fari svo að ákveðið verði að hefja aðildarviðræður að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×