Innlent

Raunhæfur möguleiki á stofnun frjálslynds hægri flokks

Elimar Hauksson skrifar
Baldur telur að sóknartækifæri séu til staðar fyrir nýjan hægri flokk á Íslandi, þar sem frjálslyndir hægri menn virðist ekki lengur fá hljómgrunn innan Sjálfstæðisflokksins.
Baldur telur að sóknartækifæri séu til staðar fyrir nýjan hægri flokk á Íslandi, þar sem frjálslyndir hægri menn virðist ekki lengur fá hljómgrunn innan Sjálfstæðisflokksins.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru margir hverjir undrandi yfir þeim fregnum að flokkurinn hyggist styðja slit aðildarviðræðna við ESB í ljósi fyrirheita flokksins fyrir kosningar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, telur að sóknartækifæri séu til staðar fyrir nýjan hægri flokk á Íslandi, þar sem frjálslyndir hægri menn virðist ekki lengur fá hljómgrunn innan flokksins.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur spannað það breiða svið sem er hægra megin við miðju í íslenskum stjórnmálum. Á öllum hinum norðurlöndunum er hægri blokkin þrí- ef ekki fjórklofin. Nú er hins vegar öllum ljóst að þessi svokallaði sjálfstæðisarmur ræður ríkjum í flokknum og hefur gert á síðustu árum. Hann hefur í raun ýtt algerlega til hliðar þessum frjálslyndari frelsisarm flokksins sem virðist eiga mjög erfitt uppdráttar innan hans,“ segir Baldur.

Hann telur að sóknartækifæri séu til staðar fyrir nýjan frjálslyndan hægri flokk á Íslandi.

„Sjálfstæðisflokkurinn er á síðustu árum búinn að missa einn fjórða af fylgi sínu. Þar er klárlega sóknarfæri fyrir frjálslyndan hægri flokk. Þá væri hægt að sækja fylgi til Framsóknarflokksins og jafnvel til Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. Það gæti vel verið svigrúm í íslenskum stjórnmálum fyrir frjálslyndan hægri flokk, sérstaklega ef við skoðum þróunina á norðurlöndunum,“ segir Baldur Þórhallsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×