Innlent

Tvær undirskriftasafnanir gegn afturköllun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
MYND/THJOD.IS
Önnur undirskriftasöfnun gegn þingsályktunartillögu stjórnarflokkanna að draga aðildarumsókn Íslands í Evrópusambandið til baka hefur litið dagsins ljós.

Vísir hefur áður greint frá undirskriftasöfnun sem hófst í gærmorgun undir yfirskriftinni „EKKI draga umsóknina til baka“ og hafa nú rúmlega 12.500 skrifað nafn sitt við hana þegar þetta er skrifað.

Samtökin Já, Ísland hleyptu einnig söfnun af stokkunum í gær sem ber heitið „Já, ég vil klára“.

Í áskorun sem fylgir undirskrifalistanum segir: „Spurningin um aðild að Evrópusambandinu er stærri og mikilvægari en svo að einstakir stjórnmálaflokkar eða ríkisstjórnir eigi að ráða svarinu. Alþingi ber að sýna þjóðinni þá virðingu að leggja framhald aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins í dóm allra Íslendinga.“

Nú um klukkan 10 í morgun höfðu liðlega 7000 manns skrifað undir áskorunina en þar eru kennitölur samkeyrðar við Þjóðskrá til að sannreyna undirskriftirnar.

 

Uppfært klukkan 12:15

Nú hafa rúmlega 13.800 manns skrifað undir „EKKI draga umsóknina til baka" og fjöldi undirskrifta á listanum „Já, ég vil klára" er nú kominn yfir 10.000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×