Innlent

„Smánarblettur á þjóðfélaginu“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Ríkissaksóknari kannar nú hvort tilefni sé til viðbragða af hálfu embættisins eftir að viðkvæmum rannsóknargögnum í kynferðisafbrotamáli var lekið á netið. Aðstandendur síðunnar sem birta gögnin vilja rjúfa þöggunarvítahring í íslensku samfélagi. Móðir stúlku sem leitar réttar síns í málinu neitar að hafa lekið gögnunum.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá því að rannsóknar- og trúnaðargögnum í kynferðisbrotamáli gegn lögreglumanni hefðu verið gerð opinber á íslenskri vefsíðu. Sagt var í gær að málinu hefði verið vísað frá dómi en það er ekki rétt, ríkissaksóknari lét málið niður falla árið 2012 á þeim grundvelli að ákæra væri ekki líkleg til sakfellingar.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari svaraði fyrirspurn Vísis um málið í dag og sagði að embættinu væri kunnugt um birtingu gagnanna. Kannað er innan embættisins hvort birtingin brjóti í bága við lög.

Getur varðað þriggja ára fangelsi

Birting gagna af þessu tagi fellur undir 229. gr. almennra hegningarlaga sem snýr að ærumeiðingum. Brotið getur varðað allt að eins árs fangelsi. Birtingin getur einnig fallið undir 42. gr. persónuverndarlaga en brot á þeirri lagagrein getur varðað allt að þriggja ára fangelsi.

Stjórnendur vefsíðunnar Stöndum Saman sendu frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem þeir skýra frá því hvers vegna gögnin eru birt. Tilgangurinn sé að rjúfa þöggunarvítahring sem skapast hefur í íslensku samfélagi gagnvart kynferðisbrotamálum. Óánægja sé með að málið hafi ekki ratað fyrir dómstóla á sínum tíma. Stjórnendur síðunnar telja jafnframt að það eigi ekki að vera saknæmt að birta gögn af þessu tagi.

Gagnrýnir Brynjar

Rætt var við Brynjar Níelsson, alþingsmann og hæstaréttarlögmann, í gær og óttaðist hann þá þróun að viðkvæm gögn væru birt. Móðir stúlkunnar sem er fórnarlamb í málinu neitar að hafa lekið gögnunum og segist engin tensl hafa við síðuna. Hún undrast stöðu kynferðisbrotamála gegn börnum á Íslandi.

„Mér finnst að við sem siðað samfélag verðum að skoða hvað sé að í okkar réttarkerfi, kerfi sem þingmaðurinn og hæstaréttarlögmaðurinn Brynjar Níelsson segir að hafi kostað okkur blóð svita og tár að koma á. Kerfi þar sem meirihluti kynferðisbrotamála gegn börnum eru felld niður,“ segir móðirin sem vill ekki koma undir nafni.

Við henni blasi sá veruleiki að almenningur á Íslandi líti frekar undan en að tilkynna kynferðisbrot gegn börnum. „Það eru mörg mál sem hafa verið að koma upp til sönnunar á því,“ segir móðirin og nefnir í því samhengi mál Karls Vignis Þorsteinssonar. „Þetta er smánarblettur á þjóðfélaginu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×