Fréttasíðan TMZ birtir myndir af grínistanum Bill Cosby í baðslopp en myndirnar voru teknar af ofurfyrirsætunni Janice Dickinson. Hún segir að myndirnar hafi verið teknar rétt áður en Cosby nauðgaði henni.
Janice segist hafa farið á uppistand með Cosby árið 1982 í Lake Tahoe í Bandaríkjunum. Hann hafi boðið henni upp á hótelherbergi sitt og lofað að hjálpa henni að verða stjarna.
Í viðtali við Entertainment Tonight segir Janice að Cosby hafi gefið henni vín og verkjalyf og að það síðasta sem hún hafi munað var að Cosby hafi farið úr sloppnum, sem hann klæðist á myndunum hér fyrir ofan, og lagst ofan á hana. Síðan hafi hún misst meðvitund. Daginn eftir segist hún hafa vaknað nakin með sæði á milli fótleggjanna.
Janice segist hafa tekið meðfylgjandi myndir á hótelherberginu eftir að hún tók verkjalyfin og áður en hún missti meðvitund.
Janice er ein af fjölmörgum konum sem hafa sakað Cosby um kynferðislegt ofbeldi en lögmaður grínistans segir ekkert hæft í þessum ásökunum.