Innlent

Vilja skaðabætur frá bænum vegna skóla

Hanna Ruth Ólafsdóttir skrifar
Íbúar í nágrenni Krikaskóla hafa sumir höfðað mál á hendur Mosfellsbæ þar sem þeir halda því fram að byggingin rýri verðgildi eigna þeirra.
Íbúar í nágrenni Krikaskóla hafa sumir höfðað mál á hendur Mosfellsbæ þar sem þeir halda því fram að byggingin rýri verðgildi eigna þeirra. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Átta íbúar í fjölbýlishúsinu að Stórakrika 1 sem og íbúar í einbýlishúsi að Stórakrika 11 í Mosfellsbæ hafa höfðað mál gegn bænum þar sem þeir telja að byggingin þar sem Krikaskóli er til húsa rýri verðgildi eigna þeirra. Fara þeir fram á skaðabætur frá einni til sjö milljóna króna vegna útsýnisskerðingar og hávaðamengunar.

Jón Magnússon er lögmaður íbúa að Stórakrika 1.
Jón Magnússon lögmaður, sem fer fyrir máli íbúanna að Stórakrika 1, segir að um stórtjón fyrir íbúana sé að ræða. „Þetta snýst um verðrýrnun þar sem skjólstæðingar mínir voru að kaupa eign í rólegu úthverfi en nú er allt í hávaðalátum, bjölluhringingum og mikilli umferð á öllum virkum dögum. Þetta er meiriháttar tjón fyrir einstaklinga þar sem við erum að tala um milljónir.“

Samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi var gert ráð fyrir leikskóla á lóðinni en því var breytt eftir samkeppni um hönnun á starfi og útliti skólans með þeirri niðurstöðu að reisa skyldi í staðinn leik- og grunnskóla fyrir eins til níu ára gömul börn.

Það fór því svo að skólinn fór úr því að vera á einni hæð yfir í tvær og stækkaði um tæplega helming frá upphaflegum teikningum.

Gert var mat á aðstæðum íbúa í nærliggjandi húsum með þeirri niðurstöðu að Mosfellsbær féllst á að greiða fjórum íbúum í raðhúsalengju næst skólanum 1,4 til 1,9 milljónir í skaðabætur vegna þess tjóns sem þeir urðu fyrir vegna skerðingar á verðmæti eigna þeirra. Í því mati var ekki fallist á að íbúar í fjölbýlishúsi að Stórakrika 1 og í einbýlishúsi að Stórakrika 11 ættu rétt á skaðabótum. Farið var fram á að gert yrði yfirmat og var niðurstaðan úr því mati sú að íbúar í fyrrnefndum húsum ættu einnig rétt á bótum. Því hafnaði Mosfellsbær og er málið því nú fyrir dómi.

Bryndís Haraldsdóttir, formaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar
Bryndís Haraldsdóttir, formaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, segir að eftir mótmæli íbúa vegna breytinga á upphaflegu deiliskipulagi hafi bygging verið færð fjær nálægum húsum og þannig lækkað í landinu. „Einhverjir nágrannar sættu sig ekki við þetta og kærðu málið áfram, Mosfellsbær gerði tilraun til sáttar í málinu en það var ekki samþykkt af öllum aðilum. Þá leita þeir aðilar réttar síns fyrir dómstólum.“ Hún nefnir að Mosfellsbær sé ánægður og stoltur af Krikaskóla. „Bæði starfinu þar og byggingunni sjálfri og telur skólann vera til mikilla bóta fyrir bæinn og hverfið sjálft,“ segir Bryndís að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×