Erlent

Fox fjarlægir Family Guy þátt

Jóhannes Stefánsson skrifar
Fox hefur fjarlægt nýlegan Family Guy þátt, sem sýnir fólk verða fyrir bíl í Boston maraþoninu, af vefsíðu sinni. Fox segir að ekki standi til að birta þáttinn að nýju á næstunni.

Í þættinum sést aðalpersóna þáttanna, Peter Griffin, endurupplifa það þegar hann keyrir á hlaupara til að vinna keppnina.

Þá hefur önnur, fölsuð útgáfa af myndskeiðinu verið gagnrýnd auk annars myndskeiðs sem sýnir Griffin vingast við öfgamann.

Griffin, sem er talsettur af Seth MacFarlane, sést í myndskeiðinu hringja í síma og í bakgrunninum heyrast sprengingar og öskur fólks. Í þessari breyttu útgáfu myndskeiðins virðist sem sprengingarnar eigi sér stað í miðju maraþoninu. Síðar í þættinum, sem ber nafnið Turban Cowboy, kemur í ljós að sprengingarnar eru í raun ótengdar maraþoninu.

Í athugasemdum á netinu hefur það verið gefið í skyn að þátturinn hafi „spáð fyrir“ um sprengingarnar.

„Viðbjóðslegt“

Höfundur þáttanna, Seth MacFarlane, gagnrýndi hina fölsuðu útgáfu myndskeiðsins á Twitter og sendi fórnarlömbum sprenginganna, þar sem þrír létust og að minnsta kosti 176 slösuðust, samúðarkveðjur.

Seth sagði: „Falsaða útgáfa Family Guy myndskeiðsins sem er verið að dreifa er viðbjóðsleg. Þessi atburður var hræðilegur glæpur og hugur minn er hjá fórnarlömbunum.“

Talsmenn Fox segjast vera í samstarfi við YouTube um að fjarlægja falsaða myndskeiðið af síðunni.

Film4 hefur að sama skapi tekið myndina Four Lions af dagskrá í næstu viku. Myndin, sem er grínmynd eftir Chris Morris, fjallar um hóp breskra múslima sem eru að skipuleggja sprengjuárás á Lundúnarmaraþon.



Sjá frétt BBC um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×