Enski boltinn

Ég þurfti mína tvo daga eftir landsleikina

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vinnan tekur við hjá Aroni Einari í dag þegar Cardiff mætir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Fyrirliðinn er kominn niður á jörðina.
Vinnan tekur við hjá Aroni Einari í dag þegar Cardiff mætir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Fyrirliðinn er kominn niður á jörðina. nordicphotos/getty
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands og leikmaður Cardiff, var í eldlínunni í vikunni þegar íslenska landsliðið í knattspyrnu skráði sig í sögubækurnar er liðið komst áfram í umspil um laust sæti á heimsmeistaramótinu í Brasilíu á næsta ári.

Leikmenn landsliðsins þurfa aftur á móti að komast fljótlega niður á jörðina en þeir hefja margir hverjir aftur leik með félagsliðum sínum um helgina.

„Það er auðvitað ákveðið afrek að komast í umspilið en núna tekur við hið hefðbundna líf og ég þarf strax að fara einbeita mér að félagsliði mínu,“ segir Aron Einar, en Cardiff mætir í dag Chelsea á Stamford Bridge klukkan tvö í dag.

Fljótur niður á jörðina

„Það kemur bara í ljós á mánudaginn hvaða liði við mætum í umspilinu en í bili þurfa menn bara að koma sér niður á jörðina og hugsa um vinnuna sína. Ég passaði mig að fagna ekki of mikið eftir leikinn gegn Norðmönnum á þriðjudaginn þar sem ég er mjög líklega að fara hlaupa í 90 mínútur á laugardaginn.“

Ísland hafnaði í öðru sæti í sínum riðli í undankeppni HM og verður því í pottinum þegar dregið verður um það hvaða lið mætast í umspilinu. Ísland getur mætt Portúgal, Úkraínu, Króatíu eða Grikklandi.

„Maður eru smá lemstraður eftir þessa landsleikjatörn og ég þurfti mína tvö daga til að jafna mig en ég er klár í slaginn. Það verður gaman að koma í fyrsta skipti á Stamford Bridge og spila við Chelsea.“

Getum unnið alla á góðum degi

Cardiff vann frábæran sigur á Manchester City í ágúst og þar sýndi liðið að það er til alls líklegt í ensku úrvalsdeildinni. Aron Einar skoraði fyrsta mark Cardiff í þeim leik og í leiðinni fyrsta mark félagsins í sögunni í ensku úrvalsdeildinni.

„Við getum klárlega staðið í öllum liðum í þessari deild, sérstaklega ef við spilum eins og lagt er fyrir okkur. Maður kemst oft langt á baráttunni og við erum búnir að undirbúa okkur vel fyrir leikinn gegn Chelsea. Það er vissulega ekki auðvelt að spila gegn Chelsea á útivelli og ætlast til þess að maður nái í einhver stig. Leikmenn smærri liðanna í úrvalsdeildinni þurfa að mæta í alla leiki með það fyrir augum að allir vinni hver fyrir annan en það er í þeim liðum sem liðsheildin skiptir hvað mestu máli. Ef maður á að vera raunsær þarf Chelsea að eiga heldur slakan leik til þess að við náum einhverjum út úr þessum leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×