Lífið

Erlent fjölmiðlafólk sýnir ATP áhuga

SM skrifar
Tómas Young segir erlent fjölmiðlafólk áhugasamt um að sækja All Tomorrow‘s Parties.
Tómas Young segir erlent fjölmiðlafólk áhugasamt um að sækja All Tomorrow‘s Parties.

„Þetta er auðvitað mjög ánægjulegt fyrir okkur sem að hátíðinni stöndum, sérstaklega þar sem þessir aðilar höfðu samband við okkur að fyrra bragði. Þetta lýsir mjög þeim áhuga sem er fyrir hátíðinni, en þessir miðlar og fleiri hafa skrifað um hátíðina undanfarnar vikur.

Pitchfork Magazine hefur til dæmis fjallað mikið um hátíðina og taldi hana með á lista sínum yfir áhugaverðar tónlistarhátíðir í sumar,“ segir Tómas Young, skipuleggjandi tónlistarhátíðarinnar All Tomorrow‘s Parties sem fram fer á Ásbrú dagana 28. og 29. júní. Mikill fjöldi erlendra blaðamanna hefur staðfest komu sína á hátíðina, þar á meðal fjölmiðlafólk frá MTV í Bretlandi, NME, vefsíðunni Drowned in Sound og Spin Magazine.

Þá hafa nokkrar kvikmyndastjörnur haft samband við Tómas og lýst yfir áhuga á að sækja hátíðina. Tómas viðurkennir að umfjöllun sem þessi geti skipt sköpum fyrir hátíðina. „Öll umfjöllun er auðvitað mjög mikilvæg svo að hróður hátíðarinnar berist sem víðast því áætlað er að halda hana aftur á næsta ári,“ segir Tómas að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×