Innlent

Plaggið verður ekki misskilið

Grétar Þór Eyþórsson
Grétar Þór Eyþórsson

Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks einkennist af því að helstu áherslur beggja flokka fá að njóta sín; skuldaniðurfelling Framsóknar og skattabreytingar Sjálfstæðisflokksins. Ekkert kemur sérstaklega á óvart þegar á heildina er litið.

Þetta segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri. Spurður um einstaka málaflokka segir Grétar um Evrópumálin að orðalag stefnuyfirlýsingarinnar opni á að ef úttekt á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan Evrópusambandsins komi illa út sé ekkert endilega víst að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Peningamálin verða svo að skoðast í samhengi við áherslur í Evrópumálunum. Grétar tekur undir að yfirlýsingin sé frekar varfærin í framsetningu.

„Menn teygja sig ekki of langt. En þrátt fyrir allt er erfitt að misskilja plaggið í öllum helstu áhersluatriðum. Það kemur skýrt fram hvert skal stefnt,“ segir Grétar. Hann er ekki sammála því að umhverfismálin þurfi að líða fyrir breytingarnar.

„Það er allt of snemmt að segja að umhverfismálin séu sett niður með þessu. Landbúnaðurinn er ekki stór málaflokkur. Svo að hafa sjávarútveg og umhverfismálin saman verður að skoðast í því að ráðuneytið heitir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Það má ekki gleymast.“

Að ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar eiga það sammerkt að hafa aldrei áður setið á þeim stóli segir Grétar skemmtilegt sögulega, en það hafi í sínum huga ekki dýpri þýðingu. Allir ráðherrarnir hafi mikla reynslu úr stjórnmálum – bæði í landsmálunum og á sveitarstjórnarstiginu. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×