Innlent

Telja skógrækt við Þórsmörk í hættu

Almenningar
Almenningar
„Ég er mjög ósáttur með úrskurð nefndarinnar sem kaus að hunsa fyrirliggjandi beitarþolsmat sem unnið var af Landbúnaðarháskólanum. Þar kemur skýrt fram að það sé ekki ákjósanlegt að hefja beit á svæðinu,“ segir Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri.

Ítöluefnd, sem skipuð var af sýslumanninum á Hvolsvelli fyrir áramót, úrskurðaði nýlega að bændur fengju heimild til þess að beita fé í Almenningum í Rangárþingi eystra. Leyfi var gefið fyrir upprekstrarrétti 50 tvílembdra áa (alls 150 dýr) og eftir fáein ár 130 tvílembdra áa (alls 390 dýr). Svæðið sem um ræðir hefur verið friðað og í uppgræðslu frá 1990.

Samkvæmt lögum skal ítölunefnd byggja niðurstöðu sína á beitarþolsmati. Fyrirliggjandi beitarþolsmat var hins vegar ekki nýtt, að sögn Sveins.Hann vill þó ekki tjá sig um málið þar sem landgræðslan hafi kært málið.

Í Almenningum hefur farið fram viðamikil uppgræðsla á birkiskógi en skógurinn hefur breiðst út um 180 hektara eftir friðunina. Þar er hins vegar mikið um nýgræðlinga sem fulltrúar Landgræðslunnar og Skógræktar ríkisins óttast að þoli ekki ágang sauðfjárbeitar.

Hreinn Óskarson, skógarvörður hjá Skógrækt ríkisins og sauðfjárbóndi, segir að með því að leyfa beit á svæðinu sé verið að taka mikla áhættu. Slíkt geti jafnvel haft áhrif á loftgæði í höfuðborginni þar sem gróðurlendi á svæðinu hindrar öskufok.

„Þetta er heilbrigðismál fyrir fólk líka,“ segir Hreinn og bætir við, að um sé að ræða beit á lítt grónu landi þar sem hagsmunir snúast ekki um skort á beitilandi í byggð. „Þetta snýst um að reka fé eingöngu til að tryggja afréttareign og með því skaða hugsanlega áratuga langa gróðurframvindu. Það er algjörlega ótækt. Við segjum Almenninga óbeitarhæfa út frá sjónarmiði uppgræðslu. Niðurstaða ítölunefndar tekur hins vegar mið af því hvort landið sé beitarhæft fyrir fé og hvort dýrin geti lifað þar af. Hér takast því á tvö mjög ólík sjónarmið.“

Almenningar liggja að Þórsmörk og segir Hreinn að vegna þess þurfi að reisa girðingar til að hindra að fé renni á milli svæðanna. Kostnaður skattgreiðenda við slíkt verði um tíu milljónir og smalakostnaður og viðhald geti numið um tveimur milljónum árlega þar sem girðingarstæði við Þórsmörk sé með því erfiðara sem þekkist.

„Þetta er ekki beint hagkvæm leið til lambakjötsframleiðslu og augljóst er að þarna er verið að fórna hagsmunum almennings og náttúrunnar fyrir sérhagsmuni nokkurra bænda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×