Leikstjórnandinn Aaron Rodgers verður áfram hjá Green Bay Packers til loka tímabilsins 2019. Þetta sögðu bandarískir fjölmiðlar í dag.
Rodgers á tvö ár eftir af núverandi samningi sínum og Rodgers mun hafa skrifað undir fimm ára framlengingu á honum.
Ef Rodgers klárar samninginn fær hann 110 milljónir dollara í laun, samtals 13 milljarða króna. Það er tryggt að hann fái minnst 40 milljónir dollara.
Rodgers fær 20 milljónir dollara fyrir að klára núverandi samning og er því talan komin upp í samtals 130 milljónir dollara - 15,2 milljarða króna. Þetta mun gera hann að launahæsta leikmanni í sögu NFL-deildarinnar.
Samningurinn er á pari við risasamninginn sem Joe Flacco gerði við Baltimore Ravens eftir að hann leiddi sitt lið til sigurs í Superbowl í upphafi ársins. Flacco gerði sex ára samning sem var 120,6 milljóna dollara virði - rúmlega 14 milljarða króna.
„Ég er spenntur fyrir framtíðinni og veit að hún verður hér hjá þessu frábæra liði,“ sagði Rodgers nýverið í fjölmiðla ytra.
