Að vanda lék mikill fjöldi skemmtikrafta listir sínar á hátíðinni og aldursbil þeirra var jafn breitt og áhorfenda. Hinir ungu og framsæknu voru margir hverjir heillandi en að mínu mati voru það gömlu sleðarnir sem áttu þessa hátíð og þrennt sem stóð upp úr.
Gráhærði pönkarinn og leikarinn Henry Rollins kom alls fjórum sinnum fram. Hann bauð ekki upp á tónlist heldur magnaðar ferðasögur í bland við þrælfyndnar þrumuræður þar sem rasismi, hommafælni og karlremba fengu á baukinn. Það er erfitt að setja hinn 52 ára Rollins í kassa. Uppistandari er hann ekki, en samt er hann fyndnari en fjölmargir uppistandarar. Ég tímdi ekki öðru en að sjá hann í öll fjögur skiptin og sá ekki eftir því þar sem engin tvö voru eins.

En allt sem ég sá á hátíðinni bliknaði í samanburði við sjálft lokaatriðið, hina goðsagnakenndu Kraftwerk. Ralf Hütter, forsprakki sveitarinnar, er 66 ára en tónlistin er hins vegar algjörlega tímalaus. Glæsileg þrívíddartölvugrafíkin á bak við hljómsveitina lyfti tónleikunum upp í hæstu hæðir, og í tvær klukkustundir varð hlandblautt túnið fyrir framan stóra sviðið að besta nýlistasafni í heimi. Líklega er erfitt að finna starfandi hljómsveit sem hefur haft jafn mikil áhrif á poppsöguna og Kraftwerk. Það eru því forréttindi að fá að sjá hana spila og þeir sem eiga miða á tónleikana í Hörpu í vetur eiga von á virkilega góðu.
Áður en þið farið svo að stríða mér á gamlingjablætinu vil ég taka það fram að hinn tæplega áttræði Kris Kristofferson var hundleiðinlegur.
