Útgáfan inniheldur hljóð- og myndupptöku af tónleikum sveitarinnar á Iceland Airwaves árið 2012 í Norðurljósum, Hörpu.
Platan verður fáanleg í plötuverslunum, á iTunes og á heimasíðu hljómsveitarinnar, Foraminorreflection.com.
Kjartan Holm, gítarleikari sveitarinnar, hefur verið á tónleikaferðalagi síðustu misseri með Sigur Rós, og hefur For a Minor Reflection þess vegna haldið sig til hlés á meðan.
Hljómsveitin mun þó stíga á stokk á Iceland Airwaves og frumflytja nýtt efni í bland við eldra. Alls kemur hljómsveitin fram á sex tónleikum í vikunni, þ.e. á aðaltónleikum í Norðurljósum Hörpu á föstudagskvöld, og á fimm öðrum tónleikum utan dagskrár.