Innlent

Spyr hvort ríkisstjórnin hafi frestað nóvembermánuði

Höskuldur Kári Schram skrifar
Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi forystumenn ríkisstjórnarinnar á Alþingi í dag fyrir óljósar yfirlýsingar varðandi skuldamál heimilanna.

Helgi Hjörvar vísaði í þessu samhenig í viðtal sem Bloomberg fréttastofan tók við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Þar segir Bjarni ólíklegt að endanlegar ákvarðanir um skuldaniðurfellingu verði teknar á þessu ári.

Sérfræðingahópur forsætisráðherra á að skila tillögum um lausnir varðandi skuldavanda heimilanna í lok nóvembermánaðar.

Helgi spurði hvort skilja mætti fjármálaráðherra svo að ekki væri von á neinum tillögum á þessu ári. Hann sagði þúsundir heimila bíða eftir boðuðum aðgerðum og að ríkisstjórnin skuldi þessum heimilum skýr svör.

„Hefur ríkisstjórnin frestað nóvembermánuði? Það er óhjákvæmilegt að spurt sé því að tugir þúsunda Íslendinga bíða þess í ofvæni að í nóvembermánuði komi fram tillögur til úrlausnar á skuldavandanum sem Framsóknarflokkurinn hefur boðað. En þá ber svo við að formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir því yfir á Bloomberg að ólíklegt sé að tillögur komi fram á þessu ári og að hann vonist til þess að nefndirnar sem áttu að klára í lok nóvember klári fyrir áramót. Þá spyr maður hvort ríkisstjórnin hafi gert ráðstafanir til þess að flytja áramótin fram í nóvembermánuð eða hvernig þetta mál sé eiginlega í laginu?“sagði Helgi.

Hann gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir óljósar yfirlýsingar.

„Það er ábyrgðarhluti að tala um dagsetningar á tvist og bast eins og formaður Framsóknarflokksins annars vegar og formaður Sjálfstæðisflokksins hins vegar eru farnir að gera í málinu. Mér finnst að stjórnarflokkarnir og forystmenn þeirra skuldi skuldugum heimilum hér í landinu það að tala alveg skýrt um það hvort það sé að vænta tilllagna í nóvember eins og sagt var í sumar eða hvort þeirra sé ekki að vænta fyrr en um áramót eða hvort þeirra sé ekki að vænta fyrr en á næsta ári,“ sagði Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×