Innlent

Sérstakur saksóknari ákærir Hannes Smárason

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. nóvember.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. nóvember. Mynd/Heiða
Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Hannesi Smárasyni, fyrrverandi forstjóra og stjórnarformanni FL Group. RÚV greinir frá þessu.

Ákæran, sem hefur ekki verið birt Hannesi, snýst um millifærslu tæplega 3 milljarða króna af reikningum FL Group til Kaupþings í Lúxemborg í apríl 2005. Þetta hefur Vísir frá öruggum heimildum.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. nóvember en ákæran hefur ekki verið gerð opinber.

Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrverandi forstjóri FL Group gerði athugasemdir við þessa millifærslu eftir að hún tók við starfinu sumarið 2005, og sagði engin gögn hafa verið til um málið og að hún hefði aldrei fengið fullnægjandi skýringar á millifærslunni, þó vísbendingar hafi verið um að peningarnir hafi á einhverjum tímapunkti verið færðir á Fons.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er haft eftir Ingu Jónu Þórðardóttur, fyrrverandi stjórnarmanni í FL Group, að henni hafi verið tjáð að fjármunir hafi horfið af bankareikningum félagsins. Fullyrt hefur verið að millifærslan hafi átt þátt í að Inga Jóna og fleiri stjórnarmenn FL Group sögðu af sér árið 2005.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.