Enski boltinn

Þegar Gaui Þórðar skutlaði Gylfa á æfingar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gylfi Þór og Guðjón árið 2009.
Gylfi Þór og Guðjón árið 2009. Mynd/Samsett
„Nei, ég held að Gaui hafi bara sofið fremst í rútunni,“ sagði ungur og efnilegur Gylfi Þór Sigurðsson vorið 2009 í viðtali við Fótboltaþáttinn á Útvarpi Sögu.

Gylfi var þá nýkominn til Crewe á lánssamningi en hann var samningsbundinn Reading. Gylfi var nýstiginn úr rútu Crewe fyrir leik sem framundan var á útivelli daginn eftir. Stjóri Crewe var Guðjón Þórðarson sem fékk um leið það hlutverk að sækja Gylfa á hótelið fyrir æfingar liðsins.

„Hann hefur verið á réttum tíma til þessa,“ sagði Gylfi léttur. Hafnfirðingurinn var nítján ára þegar viðtalið var tekið og að fóta sig í enska boltanum. Hann viðurkenndi að hann léti Guðjón ekki bíða eftir sér þegar hann kæmi að sækja sig.

„Ég er alltaf mættur á réttum tíma og tíu mínútum fyrr,“ sagði Gylfi léttur.

Víða var komið við í spjallinu og kom á daginn að Gylfi stundaði fjarnám við Verzlunarskóla Íslands. Hann viðurkenndi þó að meiri tími færi í að leikjatölvurnar en námsbækurnar. Þá var Gylfi ekki alveg viss hversu fyrirferðamikill nammipokinn væri á varamannabekknum hjá Guðjóni sem stjóra á Englandi.

Spyrnumaðurinn hafði verið í Englandi í um eitt ár þegar þarna var komið sögu. Hann átti enn eftir að stimpla sig inn í liðið hjá Reading og fór af þeim sökum í lán. Fyrst til Shrewsbury og síðar Crewe. Strax um haustið var hann orðinn lykilmaður hjá Reading, skoraði 17 mörk í 38 deildarleikjum.

Síðan hefur Gylfi Þór stimplað sig inn í ensku úrvalsdeildina, leitt U21 árs landslið Íslands í lokakeppni EM og farið á kostum með karlalandsliðinu í yfirstandandi undankeppni fyrir HM í Brasilíu. Ótrúleg fjögur ár svo ekki sé meira sagt.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Gylfa með því að smella hér. Viðtalið hefst eftir 23 mínútur af þættinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×