Enski boltinn

Enska knattspyrnusambandið kærði Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho upp í stúku um helgina.
Jose Mourinho upp í stúku um helgina. Mynd/NordicPhotos/Getty
Enska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að kæra Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Chelsea, fyrir hegðun sína í sigurleiknum á Cardiff á laugardaginn. Hann hefur til 24. október að koma með sitt sjónarhorn á atburðina á Brúnni um helgina.

Mourinho endaði leikinn upp í stúku eftir að dómarinn Anthony Taylor gafst upp á að hlusta á mótmæli Portúgalans sem var mjög ósáttur með hvað leikmenn Cardiff fengu að tefja leikinn.

Mourinho sat síðustu tuttugu mínúturnar upp í stúku en á þeim tíma skoraði Chelsea-liðið tvö mörk og tryggði sér 4-1 sigur.

„Ég veit ekki af hverju dómarinn leyfði mér ekki að vinna vinnuna mína," sagði Jose Mourinho á flugvellinum í Dusseldorf í dag og áður en hann frétti af kærunni. Hann mætti ekki í viðtöl eftir Cardiff-leikinn.

„Það er ekkert skemmtilegt að þurfa að sitja hjá stuðningsmönnunum. Þetta var mjög pirrandi Ég vil fá að vera í sambandi við mína leikmenn og þarna gat ég það ekki," sagði Jose Mourinho og hann var enn hneykslaður á því hvað Cardiff-liðið fékk að hans mati að tefja leikinn.

„Þú borgar fyrir 90 mínútur en færð bara að sjá 55 eða 60. Það er mitt mat að þarna sé um leikbrot á ræða því það tók mótherja okkar að meðaltali í kringum 21,5 sekúndur að koma boltanum aftur í leik," sagði Mourinho.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×