Innlent

Notaði stamtæknina úr The King's Speech

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Mynd/DailyMail
Breska sjónvarpsstöðin Channel Four sýndi í gær þáttinn Educating Yorkshire en í þættinum var meðal annars sýnt frá árangri hins sautján ára gamla Musharaf Ashgar í baráttu sinni við stam.

Musharaf hafði stamað frá barnsaldri. Háði þetta honum gríðarlega í námi og varð hann einnig fyrir miklu einelti. Enskukennari hans, Matthew Burton, ákvað að taka málin í sínar hendur og gera allt sem hann gæti til þess að hjálpa Musharaf að ná tökum á staminu.

Í sameiningu hófu þeir að nota sömu tækni og sjá má í Óskarsverðlaunamyndinni The King‘s Speech, þar sem konungur Bretlands, Georg sjötti, vinnur bug á stami sínu með því setja tónlist í eyrun og lesa þannig upphátt.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá þegar Musharaf flytur stutta ræðu í hátíðarsal skólans. Um 200 nemendur og kennarar voru samankomnir til að hlusta á hann flytja ræðuna og réðu margir hverjir ekki við tárin. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×