Innlent

Lokað á ferðamenn, vill ráðherra í málið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Knútur Bruun, ferðaþjónustubóndi að Hofi í Öræfum: "Þetta er auðvitað til háborinnar skammar."
Knútur Bruun, ferðaþjónustubóndi að Hofi í Öræfum: "Þetta er auðvitað til háborinnar skammar." Myndir/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Bænhúsið og gamli torfbærinn að Núpsstað hafa verið lokuð ferðamönnum í á þriðja ár vegna ágreinings landeiganda og opinberra aðila. Ágreiningur meðal landeigenda við Jökulsárlón kemur einnig í veg fyrir að þar sé ráðist í frekari uppbyggingu.

Núpsstaður var áður með vinsælli áningarstöðum við hringveginn um Skaftafellssýslur. Gömlu bæjarhúsin og ekki síst gamla bænhúsið trekktu að. Þar er nú harðlæst hlið og skilti sem segir að þetta sé einkaeign og umferð bönnuð. Eftir að síðasti ábúandi féll frá fyrir þremur árum kostuðu Skaftárhreppur, Þjóðminjasafn og Vatnajökulsþjóðgarður starfsmenn til að annast mótttöku ferðamanna og umhirðu snyrtingar, en aðeins til bráðabirgða eitt sumar.

„Þarna er bara allt stopp. Þarna fær enginn að fara inn, lok, lok og læs, af því að eigandi jarðarinnar annarsvegar og þjóðminjayfirvöldin hinsvegar eru í hörðum slag um hvernig á að standa að þessu og geta ekki komið sér saman um það,“ segir Knútur Bruun, ferðaþjónustubóndi að Hofi í Öræfum, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

Hann segir að æðstu yfirvöld þurfi að finna hér sáttamenn og hvetur ráðherra ferðamála að ganga í málið.

Við Núpsstað. Læst hlið og skilti segja ferðamönnum að þetta sé einkaeign og umferð bönnuð.
En Knútur nefnir annað dæmi, Jökulsárlón, eitt helsta aðdráttarafl landsins. Þar séu 3-4 eldgamlar timburburstir, kofar. Eigendur landsins standi í vegi fyrir því að hægt sé að byggja þar upp alvöru ferðaþjónustu með góðum snyrtingum og þokkalegum veitingarekstri.

„Þarna koma 200-300 þúsund manns á hverju ári. Þetta er auðvitað til háborinnar skammar,“ segir Knútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×