Innlent

Hefja smíði lúxushótels við rætur Öræfajökuls

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fosshótel áforma smíði lúxushótels við Hnappavelli í Öræfasveit fyrir einn og hálfan milljarð króna. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist fljótlega eftir áramót og að hótelið hefji rekstur vorið 2015.

Þetta verður fyrsta fjögurra stjarna hótel Suðausturlands og ein mesta atvinnuuppbygging í sögu héraðsins. Bændur á Hnappavöllum hafa samið við eigendur Fosshótela um að leggja til land undir hótel um einn kílómetra vestan við bæjaþyrpinguna.

Frá Hnappavöllum í Öræfum.Mynd/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Hótelið verður í lágreistum byggingum með alls 116 herbergjum og verður þetta ein stærsta uppbygging í atvinnurekstri sem sést hefur í Öræfasveit.

Davíð Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela.
Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 lýsir Davíð Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, þessum áformum nánar, en verkefnið er nú í skipulagsferli hjá sveitarfélaginu Hornafirði. Hann segir þetta kalla á mikið af störfum á framkvæmdatíma og einnig eftir að hótelið verður opnað. Davíð segir þó erfitt að fá heimafólk, það sé ekki á lausu, og vonast hann til að þessi uppbygging verði til þess að fleiri flytji í sveitina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×