Lífið

„Ef þú ert eitthvað að þykjast er þér bara sagt að þú sért aumingi“

Skálmöld í stuði.
Skálmöld í stuði.
„Krakkarnir sjá strax ef þú ert eitthvað að þykjast og þá er þér bara sagt að þú sért aumingi,“ segir Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari og helsta málpípa þungarokkshljómsveitarinnar Skálmaldar.

Sveitin heldur tvenna tónleika á morgun á Gamla Gauknum. Annars vegar hefðbundna kvöldtónleika að hætti öldurhúsa, en hins vegar fyrir yngstu aðdáendur sína klukkan 16, þar sem að sjálfsögðu ekkert aldurstakmark verður. Þetta hefur sveitin gert áður og hefur framtakið mælst vel fyrir.

„Þetta er alltaf jafn gaman. Þetta eru svo miklir snillingar og alveg ótrúlega hreinskilið fólk. Maður er spurður eftir tónleika hvers vegna maður sé feitur, nú eða blautur, og hvort manni finnist gaman að öskra,“ segir Snæbjörn, og bætir því við að eyrnatappar verði í boði fyrir alla sem það vilja.

Snæbjörn hvetur tónlistarfólk til þess að sinna þessum aldurshópi og þvertekur fyrir það að vinsældir sveitarinnar hjá ungu kynslóðinni þurfi að vera einsdæmi.

„Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.“

Fyrri tónleikarnir hefjast sem áður segir klukkan 16 og er miðaverð 1500 krónur. Ásamt Skálmöld kemur hljómsveitin The Vintage Caravan fram. Seinni tónleikarnir hefjast síðan klukkan 22 og þá bætast strákarnir í Kontinuum við í hópinn. Miðaverð á seinni tónleikana er 3000 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×