Innlent

Kanadískt félag yfirtekur sérleyfi á Drekasvæðinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kanadískt olíufélag, Íþaka, er orðinn rétthafi og rekstraraðili annars af tveimur olíuleitarleyfunum á íslenska Drekasvæðinu eftir að það yfirtók breska olíufélagið Valiant.

Ekki eru nema fjórir mánuðir liðnir frá því að íslensk stjórnvöld úthlutuðu tveimur fyrstu sérleyfunum til rannsókna og vinnslu olíu á Drekasvæðinu. Fulltrúi breska félagsins Valiant Petroleum tók við öðru leyfinu sem rekstraraðili, með 56,25% hlut. Íslenska félagið Kolvetni ehf., með 18,75%, og norska ríkisolíufélagið Petoro, með 25%, eru einnig aðilar að leyfinu.

Nú hefur Ithaca Energy tekið yfir hlutverk Valiant sem rekstraraðili leyfisins en til þess þurfti samþykki Orkustofnunar. Kanadíska félagið gerði eigendum Valiant 36 milljarða króna yfirtökutilboð sem fallist var á og var endanlega gengið frá yfirtöku Íþöku á Valiant fyrir um tveimur vikum.

Íþaka var stofnað í Alberta í Kanada árið 2004 og er skráð í kauphöllunum í Toronto og London. Meginstarfsemi félagsins felst í olíu- og gasvinnslu í Norðursjó þar sem félagið kemur að rekstri nokkurra svæða. Það stundar einnig olíuleit og olíuboranir. Íþaka telst ekki stórt í olíuheiminum en velta þess á síðasta ári nam um 20 milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×