Innlent

Ólafur boðar Sigmund Davíð á fund sinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson og Sigmundur Davíð ræddu saman í gær.
Ólafur Ragnar Grímsson og Sigmundur Davíð ræddu saman í gær. Mynd/ Vilhelm.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur boðað Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, til fundar á Bessastöðum í dag klukkan hálftólf. Þar mun forsetinn væntanlega veita Sigmundi Davíð umboð til stjórnarmyndunar. Forsetinn ætlar að ræða við fjölmiðla að loknum fundi. 

Ólafur Ragnar ræddi við forystumenn stjórnmálaflokkanna í allan gærdag og lá svo undir feldi í nótt áður en hann tók þá ákvörðun að boða Sigmund Davíð til sín. Á fundum með forsetanum sögðu bæði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, að eðlilegast væri að Sigmundur Davíð fengi umboð til stjórnarmyndunar.

Bjarni Benediktsson sagði í gær að hann teldi eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn myndu hefja stjórnarmyndunarviðræður. Sterk tveggja flokka stjórn væri besti kosturinn. Hann taldi að stjórnarmyndunarviðræður þyrftu ekki að taka nema eina til tvær vikur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×