Innlent

Segir af sér eftir að hafa hvatt Bjarna til þess að láta af formennsku

Friðrik Friðriksson.
Friðrik Friðriksson.
Friðrik Friðriksson hefur sagt af sér sem formaður kosningastjórnar Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

„Ég get staðfest það að ég fór úr kosningastjórninni,“ segir Friðrik í samtali við Vísi en bætir við að engin röskun verði á baráttunni í kjördæminu þar sem stjórnin sé í raun hópur sem hittist vikulega, leggi línur og ráði meðal annars kosningastjóra. Sá kosningastjóri heldur áfram að vinna með frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins og því breytist í raun sáralítið við brotthvarf hans.

Friðrik, sem er eiginmaður Elínar Hirst, frambjóðanda flokksins í Suðvesturkjördæmi, segir þetta skref eðlilegt, þá sérstaklega í ljósi þess að hann hafi hvatt Bjarna til þess að segja af sér sem formaður í ljósi bágrar stöðu flokksins í skoðanakönnunum undanfarnar vikur. Og það tvívegis. „Ég hafði áhyggjur af stöðu flokksins,“ útskýrir Friðrik og bætir við: „Þannig það var ekki rökrétt fyrir mig að halda áfram.“

Friðrik ákvað semsagt að segja sig úr kosningastjórninni eftir að Bjarni ákvað að halda áfram sem formaður flokksins eins og hann tilkynnti á fjölmennum fundi í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ í dag.

Friðrik tekur sérstaklega fram að það sé enginn sérstakur ágreiningur á milli hans og Bjarna, „Og mér finnst það ánægjulegt að Bjarna hafi tekist að ná smá augnabliki í kringum flokkinn,“ segir hann og vonar að það muni draga upp fylgið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×