Innlent

Ægir sigrar í Hæstarétti - Steingrímur Sævarr dæmdur fyrir meiðyrði

Steingrímur Sævarr
Steingrímur Sævarr
Hæstiréttur Íslands snéri dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og dæmdi Steingrím Sævarr Ólafsson, þáverandi ritstjóra vefmiðilsins Pressunnar, fyrir meiðyrði í dag.

Ægir Geirdal stefndi Steingrími fyrir meiðyrði en tapaði í héraði. Hann krafðist þess að ummæli, þar sem hann var sakaður um kynferðisbrot, yrðu dæmd dauð og ómerk.

Ummælin á vefmiðlinum birtust frá því í nóvember árið 2010 þar til í maí 2011. Tvær systur stigu fram í kjölfar þess að Ægir bauð sig fram til setu á stjórnlagaþingi og sökuðu hann um að hafa misnotað sig þegar þær voru börn.

Ægir hafnaði þessum ásökunum og hótaði bæði þeim og Pressunni lögsókn. Ekkert hefur þó orðið af málshöfðun á hendur systrunum.

Ummælin sem voru dæmd ómerk voru þrjár fyrirsagnir sem birtust á vefsíðunni.

Ægir krafði Steingrím Sævar um eina milljón króna í miskabætur og 200 þúsund krónur að auki til að kosta birtingu dómsins. Steingrímur þarf aftur á móti að greiða Ægi 400 þúsund krónur í miskabætur og 200 þúsund til að kosta birtingu dómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×