Innlent

"Loksins komin með Blæ í vegabréfið mitt"

„Ég var að búast við því að vinna, ég var alltaf jákvæð," sagði Blær Bjarkardóttir Rúnarsdóttir við fjölmiðla nokkrum mínútum eftir að dómari úrskurðaði að heimilt sé fyrir konur að heita nafninu Blær. Mannanafnanefnd hafði áður úrskurðað að nafnið væri karlkyns.

Blær hefur hingað til alltaf borið nafnið Stúlka Bjarkardóttir Rúnarsdóttir í þjóðskrá, þar sem íslenska ríkið hefur ekki viðurkennt nafnið. Móðir hennar Björk Eiðsdóttir, fór í mál við íslenska ríkið, og var dómur kveðinn upp í morgun. Nafnið var samþykkt sem kvennmannsnafn.

Dómari sýknaði íslenska ríkið af miskabótum og var málskostnaður látinn falla niður.

Ertu fegin að þessu sé lokið? „Já, þetta var svolítið mikið stress," sagði Blær við fréttamenn eftir dómsuppsöguna. Hvernig ætlarðu að halda upp á þetta? „Ég veit það ekki, ég þarf nú að fara í skólann en fæ mér örugglega góðan mat í kvöld."

„Loksins er ég komin með Blæ í vegabréfið mitt," sagði hún, en í dag ætlar hún að fara endurnýja vegabréf, debetkort og önnur skilríki því hingað til hefur hún heitið stúlka á þeim vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×