Innlent

Upplifði einelti og ofbeldi á íbúafundi í Grafarvogi

Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, segist hafa upplifað einelti, og „hreint og klárt ofbeldi frá nokkrum fundagestum" á íbúafundi í Grafarvogi í kvöld. Jón lýsir þessu í Dagbók borgarstjórans á samskiptavefnum Facebook.

Þar skrifar Jón meðal annars um fundarherferð sem hann hafi staðið fyrir í öllum hverfum borgarinnar.

„Þetta eru búnir að vera ákaflega góðir og fræðandi fundir; fyrir mig, aðra stjórnendur og ekki síst íbúa. Mörgum spurningum hefur verið svarað, margar hugmyndir hafa kviknað og gagnrýni komið fram. Allt á málefnanlegum nótum."

Jón segir annan tón hafa kveðið við á íbúafundi í Grafarvogi í kvöld. „ Þar upplifði ég einelti og hreint og klárt ofbeldi frá nokkrum fundagestum.

Margir gengu leiðir og vonsviknir útaf fundinum. Það er sorglegt að horfa uppá það hvað frekja og yfirgangur ræður miklum ríkjum í samfélagi okkar og nær að skemma mikið. Kannski getum við eitthvað talað um það?"

Jón segir ennfremur að hann finni sig knúinn til þess að segja frá þessu, „ekki bara mín vegna heldur allra þeirra sem þurfa að lifa við niðurlægingu, háð, lítilsvirðingu, ógnanir og ofbeldi, í skólanum, á heimilinu, í vinnunni, internetinu eða á götum úti. Afhverju þegjum við svo gjarnan yfir svona? Ég varð fyrir einelti og ofbeldi í æsku. Það tók mig 30 ár að safna í mig kjarki til að segja frá því. Ég þarf ekki þann tíma lengur. Baráttan gegn ofbeldi og einelti er ekki eftir 30 ár. Hún er núna."

Borgarstjórinn lýkur svo færslunni á þessum orðum: „Annars bara takk fyrir mig kæra samstarfsfólk og frábæru borgarar!"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×