Innlent

Hvorki æskilegt né heppilegt

gunnar helgi kristinsson
gunnar helgi kristinsson
Ríkisstjórnin lagði fram 50 þingmál á Alþingi í síðustu viku. Frestur til að leggja ný mál fram rann út á laugardag. Þann dag komu 25 mál frá stjórninni.

Verklagið hefur nokkuð verið gagnrýnt á Alþingi. Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur segir þetta hvorki æskilegt né heppilegt verklag. Allir séu sammála um það, en það gangi illa að bæta starfshættina.

„Þetta endurspeglar það að stjórnarráðið er að reyna að gera marga hluti í einu og nær því kannski ekki alveg að vinna hlutina á þeim tíma sem eðlilegt væri. Það er ekki æskilegt að þingið hafi of lítinn tíma til að vinna úr málum.

Stundum hefur mann grunað að svona væri gert af ákveðnum klókindum, til að stytta vísvitandi þann tíma sem mál fá til umfjöllunar í þinginu. Í einhverjum tilvikum á það vafalaust við, en ég veit ekki hvort það á við í þessu tilviki.“

Gunnar segir þetta einnig sýna ríkjandi álag í stjórnarráðinu. Menn lendi óviljandi í tímahraki með mál. Meðal mála sem lögð voru fram í síðustu viku má nefna frumvörp um fiskveiðistjórnun, veiðigjald, Ríkisútvarpið, lögreglulög, gjaldeyrismál, heimild til fjármögnunar Vaðlaheiðarganga, útlendinga og rafrænar undirskriftir.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×