„Það er frekar óheppilegt að þetta hittist svona á en þetta verður bara eftirminnilegt ævintýri. Það þýðir ekkert að hugsa öðruvísi," segir Jóna Kristín Gunnarsdóttir grunnskólakennari sem lagði af stað til New Jersey ásamt 38 kennurum til að kynna sér nýja skólastefnu.
Það hefur verið hægara sagt en gert að kynna sér skólastefnur við þær aðstæður sem nú ríkja í Bandaríkjunum. „Við áttum tildæmis að vera í skólaheimsókn í dag. En skólarnir eru auðvitað lokaðir," segir Jóna. Hún segir þó að þeir sem hafi séð um heimsóknina séu ákaflega lipurlegir og hafi til að mynda fært námskeiðið inn á hótelið í dag.
Jóna gerir ráð fyrir því að kennararnir verði kyrrsettir á hótelinu á morgun líka. Fellibylurinn Sandy á að ganga yfir Morristown í New Jersey, þar sem kennararnir eru,í kvöld en enn hefur hann ekki teljandi áhrif á svæðinu.
„Við erum bara hérna á hótelinu núna og höfum það gott. Þetta er nú ekki byrjað hér held ég," segir Jóna. „Fyrir okkur er þetta bara dæmigert haustveður. Það losnaði reyndar þakplata á húsi á móti okkur hérna áðan. En annars er þetta rólegt."
Með kvöldinu mun veðrið að öllum líkindum versna talsvert. Kennararnir eiga ekki von á því að þurfa að yfirgefa hótelið en reikna með rafmagnsleysi næstu daga.
Heimsóknin átti að standa í eina viku og kennararnir koma því heim á föstudaginn næsta. „Við vonum alla vega að við komumst heim þá," segir Jóna.
