Innlent

Kemur til greina að rannsaka endurreisn bankanna og Icesave

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Bjarni Benediktsson spurði forsætisráðherra hvort það kæmi til greina að rannsaka Icesave og endurreisn bankanna.
Bjarni Benediktsson spurði forsætisráðherra hvort það kæmi til greina að rannsaka Icesave og endurreisn bankanna.
Forsætisráðherra segir það vel koma til greina að láta rannsaka endurreisn bankana og ferli Icesave málsins. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

Bjarni Benediktsson spurði Jóhönnu Sigurðardóttur út í fyrirhugaða rannsókn á einkavæðingu bankanna og sagðist fagna henni. Hins vegar spurði hann forsætisráðherra hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að rannsaka jafnframt hvernig staðið var að endurreisn bankana.

„Þannig að það liggi endanlega fyrir hvernig ákvörðunartakan var og hvernig samningar lágu þar að baki við kröfuhafana. Vegna þess að sú ríkisstjórn sem nú situr tók um það sérstaka ákvörðun að þeir yrðu ekki endurreistir á forsendum ríkiseignar heldur afhentir kröfuhöfunum," sagði Bjarni sem spurði ennfremur hvort Icesave samningarnir yrðu rannsakaðir.

Jóhanna Sigurðardóttir sagðist ekki hafa neitt á móti því.

„Þessi ríkisstjórn starfar í anda þess að það sé gegnsæ og opin stjórnsýsla. Ég hef ekkert á móti því að það sé farið í rannsókn, bæði á Icesave málinu sem hér er nefnt, og á endurskipulagningu á bönkunum. Þannig að það liggi alveg ljóst fyrir," sagði Jóhanna en bætti við að það væri hins vegar álitamál hvort ekki þurfi að ljúka endurskipulagningu bankana áður en ráðist yrði á rannsókn á henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×