Innlent

Skatturinn skoðar fjármál Jens

Jens er nú í veikindaleyfi frá störfum sem yfirlæknir lýtalækningadeildar LSH og á einkastofu sinni á Domus Medica.
Jens er nú í veikindaleyfi frá störfum sem yfirlæknir lýtalækningadeildar LSH og á einkastofu sinni á Domus Medica. fréttablaðið/anton
Einn lýtalæknir er nú formlega til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er hér um að ræða Jens Kjartansson.

Gunnar Thorberg, staðgengill skattrannsóknarstjóra, vildi þó ekki staðfesta nafn læknisins, en segir að einn hafi staðið upp úr í skoðun embættisins á skattamálum lýtalækna með einkarekstur.

„Við erum búin að vera að skoða nokkra lækna. Ég get ekki neitað því að við erum nú með einn í rannsókn," segir Gunnar. Ekki sé þó hægt að fullyrða að um skattsvik sé að ræða þar sem ekki liggi allar upplýsingar fyrir. Gunnar útilokar ekki að skattamál fleiri lækna verði skoðuð í kjölfarið.

Eftir að ábendingar bárust frá velferðarráðuneytinu þess efnis að lýtalæknar með einkarekstur væru ekki að gefa viðskipti sín upp til skatts, hóf embættið skoðun til að ákvarða hvort hefja skuli formlega rannsókn.

Gunnar segir rannsóknir á læknum óalgengar hjá embættinu. Þetta sé fyrsti lýtalæknirinn sem rannsakaður sé formlega.

„Það er ekki daglegt brauð hjá skattrannsóknarstjóra að eltast við lækna. Langt frá því," segir hann. „Maður hafði alltaf talið að þeir væru heiðarlegri kanturinn af fólki. Það er ekkert sérlega gaman að vita af því að þeir séu ekki með sitt á hreinu."

Búið er að láta Jens vita af rannsókninni og bíður embættið nú eftir að hann afhendi umbeðin gögn. Mál hans verða skoðuð aftur til ársins 2006. Ekki náðist í Jens í gær. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×