Innlent

Stakk logandi pappír inn um bréfalúgu

Akranes.
Akranes. MYND GVA
Logandi pappír var stungið inn um bréfalúgu í heimahúsi á Akranesi nú um helgina samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. Húsráðendur urðu varir við reyk og slökktu eldinn sem var kominn í gólfteppi og mottu auk þess sem útidyrahurðin sviðnaði. Talsverður reykur var í íbúðinni og var slökkvilið kallað á vettvang til að reykræsta. Málið er í rannsókn.

Svo fékk lögregla á Akranesi tilkynningu snemma morguns um mannlausa bifreið í Faxatorgi. Er komið var á vettvang kom í ljós að henni hafði verið ekið á kantstein. Vitni gátu lýst ökumanni vel og töldu hann ölvaðan.

Renndi lögreglumenn í grun hver hafi verið þarna á ferð og hófu leit að honum en án árangurs. Hann gaf sig síðar fram á lögreglustöð um hádegisbilið, nokkuð vel við skál, og viðurkenndi að hafa ekið bifreiðinni. Hann kvaðst hinsvegar einungis hafa drukkið áfengi eftir atvikið. Vakthafandi lögreglumenn trúðu því rétt mátulega og voru tekin úr honum sýni vegna málsins.

Tveimur stórum keflum með rafmagnsköplum var síðan stolið frá Krókatúni einhverntíma á tímabilinu 4. - 10 apríl.

Verðmæti kaplana er um 400.000 krónur og því ljóst að tapið er töluvert. Keflin eru stór og hafa tæpast verið flutt af vettvangi nema í sendi- eða vörubíl. Biður lögregla þá sem kunna að hafa orðið vitni að þessu að hafa samband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×