Innlent

Sex þúsund sóttu um niðurfellingu skulda

Heildarkostnaður Íbúðalánasjóðs vegna 110% leiðarinnar er um 7,4 milljarðar króna. Um sex þúsund umsóknir bárust um niðurfellingu á skuldum, sem er um þriðjungi minna en áætlað var í upphafi. Framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs segir vinnuna hafa gengið vel, en viðvarandi mikil verðbólga sé mikið áhyggjuefni.

Eftir að samkomulag náðist um aðgerðir fyrir skuldug heimili um hina svokölluðu 110 prósent leið, þar sem skuldir eru lækkaðar niður í 110 prósent af virði eignar, hefur Íbúðalánasjóður unnið að því að fylgja úrræðinu eftir.

Nú er að verða komin endanleg mynd á það hversu mikið sjóðurinn þarf að afskrifa vegna þessa úrræðis og hversu margir njóta góðs af því.

Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, segir að um 6.000 umsóknir hafi borist um skuldaniðurfellingu. Um helmingur af þessum umsóknum hefur verið samþykktur, sem þýðir að um 3.000 skuldarar hafa fengið niðurfellingu. Í heildina hafa um 7,4 milljarðar verið afskrifaðir vegna þess sem gerir um 2,4 milljarðar króna að meðaltali á hverja samþykkta umsókn.

Íslenska ríkið hefur þegar lagt Íbúðalánasjóði til 22 milljarða til þess að mæta erfiðleikum viðskiptavina sjóðsins. Gert var ráð fyrir að mun fleiri myndu frá afskrift skulda heldur en raunin varð. En staða leigufélaga og fyrirtækja, sem eru viðskiptavinir sjóðsins er mun verri en reiknað var með. Kostnaður vegna þeirra var áætlaður um sjö milljarðar en reyndin er nærri fjórtán milljarðar.

Sigurður segir viðvarandi verðbólgu vera áhyggjuefni, bæði fyrir skuldara og aðra. Skuldir margra þeirra sem þegar hafa fengið lækkun skulda hafa fyrir vikið hækkað.

Sigurður segir þó að það sem skipti máli sé að launaþróun verði jákvæðari umfram verðbólgu. Þar skipti sköpum að efnahagslífið almennt rétti úr kútnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×