Innlent

Þrír dæmdir fyrir að misþyrma grískum ferðamanni

Frá aðalmeðferð málsins.
Frá aðalmeðferð málsins.
Þrír karlmenn voru dæmdir í óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir alvarlega líkamsárás gegn grískum ferðamanni í maí árið 2010. Mennirnir voru fundnir sekir um að hafa veist að manninum með ofbeldi, meðal annars með ítrekuðum höggum og spörkum víðsvegar í líkama hans, höfuð og andlit.

Vitni báru flest um að mennirnir hafi stigið út úr bíl á Bankastræti, gengið í skrokk á Grikkjanum og meðal annars sparkað ítrekað í höfuð hans að því er virðist að ástæðulausu.

Tveir mannanna hlutu tveggja ára óskilorðsbundinn dóm fyrir árásina. Það voru þeir Halldór Arnar Karlsson og Guðni Guillermo Gorozpe. Sá þriðji hlaut 16 mánaða fangelsi en fjórði maðurinn var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir aðkomu að annarri árás sem tveir mannanna komu að og átti sér stað inni á skemmtistað í desember árið 2010.

Grikkinn lést á Ítalíu í desember síðastliðnum en móðir mannsins bar vitni símleiðis og lýsti sálrænum áhrifum á manninn eftir árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×