Innlent

Óbilgjarnar yfirlýsingar hjá borginni

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson

„Mér finnst þetta vera mjög brattar og óbilgjarnar yfirlýsingar. Ég hélt að við værum að vinna þessi mál í samkomulagi,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vegna orða Hjálmars Sveinssonar, varaformanns skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, í Fréttablaðinu í gær.

Hjálmar sagði þar að ein braut við Reykjavíkurflugvöll yrði lögð af árið 2015 og flugvöllurinn allur færi í áföngum. Það mundi létta á umferðarþunga vegna nýs Landspítala.

Ögmundur segir lokun norður/suðurbrautar vera alvarleg tíðindi. „Það væri nokkuð sem við gætum ekki fellt okkur við, einfaldlega vegna þess að þar með væri dregið stórlega úr getu flugvallarins og öryggis hans og nýtingu. Hvernig sem á málið væri litið væri það mjög alvarlegt mál sem kemur borginni ekki einni við. Þessar breytingar verða ekki gerðar án samráðs við ríkið, sem á drjúgan hluta af þessu landi.“

Ögmundur bendir á eldvirkni á Íslandi og segir að almannavarnaþáttur flugvallarins hafi gleymst. Gríðarlegt öryggisatriði sé að hafa flugvöll í borginni, komi til náttúruhamfara.

Þá segir hann byggð í Vatnsmýri ekki draga úr umferð í miðborginni heldur auka við hana. „Varla yrðu allir sem tækju sér þar bólfestu á hjólum eða gangandi. Það er bara ekki veruleikinn.“- kóp
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.