Innlent

Neyðast til að laga vegmerkingar

Vegagerðin hefur komið fyrir þéttbýlishliðum við enda þjóðgarðsins, enda 50 kílómetra hámarkshraði á veginum eins og í þéttbýli.
Vegagerðin hefur komið fyrir þéttbýlishliðum við enda þjóðgarðsins, enda 50 kílómetra hámarkshraði á veginum eins og í þéttbýli. Fréttablaðið/ernir
Vegagerðin hefur sent vinnuhóp til þess að laga vegmerkingar við þéttbýlishlið sem búið er að koma upp við innganginn að þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Hraðahindrunin hafði vakið þó nokkra athygli enda leit út fyrir að akreinin inn í þjóðgarðinn tæki skyndilega enda við hliðið.

„Það var óheppilegt að ekki var búið að klára yfirborðsmerkingar um leið og hliðin voru sett upp,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Hann segir að málningarflokkur hafi verið sendur út til að klára að mála þær línur sem upp á vantar og hylja heilu línuna. Ekki standi þó til að breyta hliðinu.

„Það er umferðaröryggisatriði að menn komi ekki of hratt inn í þjóðgarðinn. Hraðinn á Mosfellsheiðinni að þjóðgarðinum er 90 kílómetrar, svo er hraðinn tekinn niður í 70 og þegar komið er að þéttbýlishliðinu er hámarkshraðinn lækkaður niður í 50. Ástæðan fyrir þessum hámarkshraða er ósk frá stjórnendum þjóðgarðsins en þar að auki er vegurinn ekki hannaður fyrir hraðari umferð“, segir G. Pétur. - ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×