Innlent

Endurreiknar 57,7 milljarða

Lífeyrisgreiðslur og tengdar bætur hafa verið endurreiknaðar með tekjur samkvæmt skattframtali í huga.
Lífeyrisgreiðslur og tengdar bætur hafa verið endurreiknaðar með tekjur samkvæmt skattframtali í huga. fréttablaðið/pjetur
Tryggingastofnun þarf að endurreikna 57,7 milljarða króna af lífeyri og öðru bótafé eftir að uppgjör samkvæmt tekjum eftir skattframtali hefur verið gert.

Það er öllu meira en í fyrra þegar heildarfjárhæð endurreiknaðra greiðslna var um 50 milljarðar. Um er að ræða lífeyri og bætur skattárið 2011. Inneignir verða greiddar þann 3. ágúst og innheimta krafna hefst 1. september.

Um 46 þúsund manns eru lífeyrisþegar á Íslandi, þar af eru 29 þúsund ellilífeyrisþegar. Heildarupphæð inneigna sem greiddar verða 3. ágúst er tæpir þrír milljarðar króna samanborið við 3,6 milljarða í fyrra. Greiðslur umfram rétt eru um 1,7 milljarðar króna en voru 1,2 milljarðar í fyrra.

Ástæða þessarar skekkju er að vextir, verðbætur og arður voru í mörgum tilvikum ofáætlaðar í tekjuáætlun. Atvinnutekjur voru hins vegar vanáætlaðar. Því var 1,6 prósent frávik í lífeyrissjóðstekjum milli áætlunarinnar og skattframtals.

Um 63 prósent lífeyrisþega mega eiga von á inneignum. Það eru tæplega 29 þúsund manns. Innheimtar verða kröfur á 30 prósent lífeyrisþega en sjö prósent hafa engan mismun. - bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×